Innlent

Óverjandi að börnum skuldugra sé vísað af frístundaheimilum

BBI skrifar
Mynd/GVA
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri Grænna, skrifar á bloggi sínu um fréttir síðustu daga þess efnis að börn eigi á hættu að vera vísað af frístundaheimilum sveitarfélaga eða af leikskólum ef foreldrar þeirra greiða ekki skuldir sínar við sveitarfélagið. Hún segir slíkt með öllu óverjandi.

Sóley minnist á að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar hafi gert lítið úr málinu í fjölmiðlum og borið því við að tilvikin væru fá. Hún segir það enga bót í máli. „Það á ekki að líðast að níðst sé á börnum, hvorki mörgum né fáum," segir hún.

Sóley skrifar um 2. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem segir að ekki megi mismuna eða refsa börnum vegna stöðu eða athafna foreldra þeirra. Reykjavíkurborg velur „að brjóta í bága við greinina og beinlínis stuðla að mismunun og refsingu barna vegna athafna foreldra," segir hún.

Hún segir nauðsynlegt að breyta innheimtureglunum hið fyrsta.


Tengdar fréttir

Yfirleitt næst að semja við foreldrana

Það eru ekki mörg börn sem úthýst er af frístundaheimilum Reykjavíkurborgar vegna skulda foreldra, segir Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri frístundamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Þetta er ekki harðneskjulegt, það er svolítið langur strengurinn hjá okkur af því að við vitum að þetta er málaflokkur sem er viðkvæmur, segir hún.

Skilaboðin eiga að vera: setjumst niður og leysum málið

Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs í Reykjavíkurborg, segir að í nær öllum tilfellum séu mál skuldugra foreldra sem vilja hafa börn á frístundaheimilum leyst og aðeins sárasjaldan komi fyrir að börn fá ekki inni.

Brýnt að börn séu áhyggjulaus þrátt fyrir erfiðleika heima

Umboðsmaður barna telur líklegt að sömu reglur gildi um börn skuldugra foreldra í leikskólum og á frístundaheimilum. Hagsmunir barna af því að halda áfram leikskólagöngu sinni eða dvöl á frístundaheimili eiga því að ganga framar hagsmunum sveitarfélaga af því að innheimta gjöld fyrir vistun. Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, sendi bréf til sveitarfélaga landsins í október 2010 vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×