Innlent

Metþátttaka í Gleðigöngunni á morgun

BBI skrifar
Atriðin verða af öllum stærðum og gerðum í göngunni.
Atriðin verða af öllum stærðum og gerðum í göngunni.
Það verður metþátttaka í Gleðigöngunni á morgun þegar 40 atriði af öllum stærðum og gerðum aka niður Laugaveginn. Formaður Hinsegin daga gerir sér vonir um að 80 þúsund manns leggi leið sína í miðbæinn.

„Nú er bara að krossleggja fingur og vona að veðrið leiki við okkur," segir Eva María Þórarinsdóttir Lange, formaður Hinsegin daga, enda er hún meðvituð um að Íslendingar ferðast gjarna eftir veðri. „En við erum stærsta hátíðin á landinu og ætlum að reyna að halda því," segir hún og leyfir sér að vona að 80 þúsund manns mæti í Gleðigönguna.

Nú hafa fjörutíu atriði skráð sig. Atriðin eru mjög ólík, allt frá tröllauknum pöllum niður í smá fjölskylduatriði. „Þetta er nú met. Atriðin voru um þrjátíu í fyrra," segir Eva en gangan fer af stað klukkan tvö.

Hinsegin dagarnir eru sex daga hátíð í ár. Hún hófst á þriðjudaginn og þó hápunktinum verði náð á morgun mun hátíðin sem slík standa fram á sunnudag og ljúka með fjölskyldudegi í Viðey. „Hátíðin í ár er mjög fjölbreytt og kannski óvenjuleg að því leyti," segir Eva. „Það voru bara svo margir viðburðir sem vildu vera með. Og við bara tókum þeim fagnandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×