Fótbolti

Arnar Grétarsson kominn í valdastöðu hjá Club Brugge

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. Mynd/Vilhelm
Arnar Grétarsson hefur tekið við valdamiklu starfi hjá belgíska úrvalsdeildarfélaginu Club Brugge en hann var kynntur í dag sem nýr yfirmaður íþróttamála hjá félaginu. Þetta kom fram á heimasíðu félagsins.

Arnar mun hefja strax störf hjá Club Brugge eftir áramót en liðið er eins og er í fjórða sæti belgísku úrvalsdeildarinnar. Arnar var áður í samskonar starfi hjá gríska félaginu AEK Aþenu.

Arnar þekkt vel til belgíska boltans því hann spilaði við góðan orðstír hjá Lokeren frá 2000 til 2006. Vincent Mannaert, framkvæmdastjóri félagsins, segist á heimasíðunni vera sannfærður um að Arnar nái árangri í þessu nýja starfi og það hjálpi Arnari mikið að hann hafi góð sambönd og að persónuleiki passi vel inn í félagið.

Arnar mætir í vinnunna 2. janúar næstkomandi og daginn eftir fer hann með liðinu í æfingaferð til Marbella á Spáni. Liðið mætir síðan Eiði Smára Guðjohnsen og félögum í Cercle Brugge í fyrsta leik eftir vetrarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×