Innlent

"Fólk var í sjokki"

Erla Hlynsdóttir skrifar
Frá sundlauginni á Akureyri. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá sundlauginni á Akureyri. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mynd/auðunn níelsson
Sex ára drengur, sem bjargað var frá drukknun í sundlaug Akureyrar í gær, útskrifast líklega af gjörgæslu í dag. Læknir á gjörgæsludeild segir kraftaverki líkast að drengurinn hafi lifað af. Starfsfólk sundlaugarinnar sendir honum hlýjar kveðjur.

Talið er að drengurinn hafi verið meðvitundarlaus á botni sundlaugarinnar í nokkrar mínútur þegar tveir piltar komu honum til bjargar. Þeir syntu með hann að bakkanum þar sem lífgunartilraunur hófust strax og báru árangur.

Drengurinn var með forráðamönnum í sundlauginni þegar atvikið átti sér stað, án þess að vera með kúta. Eftir að hann komst til meðvitundar var hann strax fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann er nú á gjörgæsludeild. Að sögn vakthafandi læknis þar var drengurinn afar hætt kominn og kraftaverk að hann hafi lifað af. Því hafi farið mun betur en á horfðist.

Elín Gísladóttir, forstöðumaður sundlaugarinnar á Akureyri, segir starfsfólk hafa tekið slysið mjög nærri sér.

„Ég hafði síðan samband símleiðis því ég er í sumarfríi við alla sem voru á vakt. Fólk var í miklu sjokki. Síðan höfðum við samband við áfallateymi sem kemur til okkar eftir helgi. Þá munum við einnig fara yfir öll okkar mál, bæði þennan atburð og athuga hvort eitthvað hafi verið úrskeiðis í okkar starfsreglum," segir Elín.

Reiknað er með að drengurinn útskrifist yfir á barnadeild sjúkrahússins í dag þar sem hann verður undir frekara eftirliti.

„Við náttúrulega óskum þessum drengs alls hins besta og vonum að hann verði fljótur að ná sér eftir þetta," segir Elín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×