Innlent

Fær aðgang að gagnagrunni yfir óþekkt börn

Nokkrir íslenskir lögreglumenn eru þessa dagana í þjálfun hjá sérfræðingi frá alþjóðalögreglunni Interpol til að læra á alþjóðlegan gagnagrunn með myndum af óþekktum börnum sem eru kynferðislega misnotuð. Gagnagrunnurinn er þegar nýttur til rannsókna í um þrjátíu löndum.

Embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tengist á næstunni þessum gagnagrunni sem í eru vistaðar og greindar myndir sem lögreglan víðsvegar um heim hefur lagt hald á við rannsókn mála.

Um er að ræða myndir sem sýna kynferðislega misnotkun barna, sem ekki er vitað hver eru.

Sérþjálfaðir lögreglumenn, í löndum sem hafa aðgang að gagnagrunninum, vinna saman að því að reyna að bera kennsl á fórnarlömbin svo unnt sé að bjarga þeim úr klóm gerenda.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í samstarfi við Interpol undanfarin ár og meðal annars lagt hald á barnaklám í tölvum Íslendinga eftir ábendinga frá þeim. Tenging Íslands við gagnagrunninn markar hins vegar tímamót þar sem lögreglan hér á landi getur þá sjálf nýtt grunninn til rannsókna, bæði hér á landi og til að aðstoða við rannsóknir erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×