Fótbolti

Blóðugur niðurskurður hjá Stabæk | Íslendingarnir á förum?

Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason.
Framtíðin er ekki björt hjá norska fótboltaliðinu Stabæk en tveir Íslendingar eru á mála hjá félaginu, þeir Pálmi Rafn Pálmason og Bjarni Ólafur Eiríksson. Stabæk varð norskur meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2008 en frá þeim tíma hefur fjárhagur liðsins versnað til muna. Forráðamenn liðsins gera ráð fyrir að skera niður kostnað um allt 50% á næsta rekstrarári eða sem nemur um 700 milljónum ísl. kr.

Heildarvelta félagsins var um 1,4 milljarðar kr. á árinu 2011.

Samningur Pálma Rafns við Stabæk rennur út í lok leiktíðar og Bjarni Ólafur Eiríksson gæti einnig verið á förum frá félaginu þar sem félagið ætlar sér að losa sig við 6-7 leikmenn til viðbótar þeim 7 sem eru að klára sína samninga.

Félagið hefur verið mikið í fréttum að undanförnu vegna sölunnar á Veigari Páli Gunnarssyni frá Stabæk til Vålerenga. Það mál er nú í rannsókn hjá lögreglu en talið er að Stabæk hafi reynt að falsa kaupverðið á Veigari til þess að komast hjá því að greiða franska liðinu Nancy 50% af söluverðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×