Enski boltinn

Wenger: Almunia má fara frá Arsenal ef hann vill

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Almunia í leik á móti Blackburn.
Manuel Almunia í leik á móti Blackburn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að spænski markvörðurinn Manuel Almunia megi fara frá liðinu en lið eins og Malaga og Atlético Madrid hafa sýnt honum áhuga. Almunia hefur ekki spilað með Arsenal síðan að hann meiddist í september.

Hinn 33 ára gamli Spánverji var aðalmarkvörður Arsenal í upphafi tímabils og hefur einnig borið fyrirliðabandið hjá liðinu. Hann meiddist á olnboga í leik á móti West Bromwich Albion í september og hefur einnig verið að glíma við ökklameiðsli upp á síðkastið.

„Hann mun ráða þessu sjálfur," sagði Arsene Wenger. „Það er áhugi frá Spáni en það er erfitt að meta það hvort hann fari eða verði áfram. Það er aldrei auðvelt að fara frá því að vera fyrirliði niður í að vera þriðji kostur en það er bara hluti af boltanum," sagði Wenger.

Wenger segir Arsenal einnig vera tilbúið að hlusta á tilboð í Carlos Vela sem hefur fengið fá tækifæri í liðinu á þessu tímabili. Emmanuel Eboué hefur hinsvegar skrifað undir nýjan samning til ársins 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×