Erlent

Saka Íran um að skipuleggja morð á sendiherra Sádi Arabíu

Adel A. Al-Jubeir, sendiherra Sádí Arabíu í BNA.
Adel A. Al-Jubeir, sendiherra Sádí Arabíu í BNA.
Bandarísk yfirvöld komu í veg fyrir að sendiherra Sádí Arabíu í Bandaríkjunum yrði myrtur. Tveir menn voru handteknir grunaðir um að skipuleggja morðið en talið er að þeir hafi unnið fyrir írönsk yfirvöld.

Annar mannanna, er sagður vera meðlimur í sérsveit innan Byltingavarðanna í Íran. Hinn, sem hefur verið nafngreindur og heitir Manssor Arbabsiar, er með tvöfalt ríkisfang, annars vegar í Bandaríkjunum og hinsvegar Íran.

Sá var handtekinn í Bandaríkjunum í september síðastliðnum.

Upp komst um samsærið þegar mennirnir sömdu við uppljóstrara um að myrða sendiherrann. Þeir stóðu í þeirri trú að þeir væru að semja við mexíkóskan fíkniefnahring um morðið.

Írönsk yfirvöld neita þessu staðfastlega og segja ásakanirnar hluta af áróðursstríði Bandaríkjamanna gegn Íran.

Arbabsiar hefur verið ákærður fyrir hryðjuverk og að skipuleggja morðið á sendiherranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×