Innlent

Skjálftarnir raktir til framkvæmda Orkuveitunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá Hellisheiði.
Frá Hellisheiði. Mynd/ Vilhelm.
Þá þrjúhundruð skjálfta sem Veðurstofan mældi í nótt má alla rekja til framkvæmda Orkuveitunnar á svæðinu. Skjálftarnir voru allir undir þremur á Richter.

Síðustu viku hefur Orkuveita Reykjavíkur verið að færa niðurrennslisveitu Hellisheiðarvirkjunar frá Gráuhnúkum að Húsmúla og hefur aukið niðurrennsli við Húsmúlann valdið smáskjálftavirkni þar síðustu daga. Nú eru fjórar borholur þar að taka við vatni og fleiri eiga eftir að bætast við, samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni.

Rekstur jarðgufuvirkjunar Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði kallar á að vatni frá virkjuninni sé skilað aftur ofan í jarðlögin, niður fyrir grunnvatn. Í því skyni eru boraðar holur og er leitast við að finna sprungur í jarðlögunum sem taka á móti sem mestu vatni. Þegar góðar og víðar sprungur finnast geta þær tekið á móti gríðarlegu magni. Vatnið virkar þá eins og smurning og dregur þá úr viðnámi í berginu sem getur þá komið  á hreyfingu með tilheyrandi smáskjálftum.

Orkuveitan fullyrðir að mannvirkjum stafi ekki hætta af skjálftunum og starfsmenn Orkuveitunnar á svæðinu verði þeirra vart varir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×