Fótbolti

Hernandez skoraði tvö mörk í sigri á Serbíu - tólf landsliðsmörk á árinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernandez, framherji Manchester United og Mexíkó, skoraði bæði mörk lansliðs Mexíkó í 2-0 sigri á Serbíu í vináttulandsleik í Mexíkó í nótt. Chicharito hefur farið á kostum með landsliðinu í ár.

Hernandez skoraði fyrra markið strax á 2. mínútu þegar hann sneiddi fyrirgjöf Carlos Salcido með höfðinu en það voru þó ekki allir vissir um að hann hafi komið við boltann. „Ég snerti hann," sagði Hernandez í sjónvarpsviðtali í hálfleik.

Seinna markið hans kom síðan af vítapunktinum á 86. mínútu. Aleksandar Kolarov, leikmaður Manchester City, fékk sitt annað gula spjald fyrir að brjóta á Hernandez innan teigs.

Landslið Mexíkó hefur átt frábært ár en þetta var síðasta leikur liðsins á árinu 2011. Liðið hefur unnið ellefu leiki, gert fjögur jafntefli og aðeins tapað einum leik. Hernandez hefur skorað 12 mörk í 13 landsleikjum á þessu ári og er því kominn með 23 landsliðsmörk í 33 leikjum á ferlinum þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gamall.

Það er hægt að sjá mörkin hans Javier Hernandez í nótt með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×