Enski boltinn

Roy Hodgson: Ég mun aldrei segja af mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, segir það koma ekki til greina að hann segi af sér þrátt fyrir slæmt gengi liðsins en Liverpool hefur ekki byrjað verr frá tímabilinu 1953-54. Liverpool heimsækir Grétar Rafn Steinsson í Bolton á morgun og orðið á götunni er að liðið verði að vinna ef hann á að halda stöðunni.

„Það er búið að taka mig langan tíma að komast í það að þjálfa eitt af stærstu félögunum í Evrópu. Ég var mjög ánægður með að fá starfið og hætti í góðu starfi til þess komast hingað. Það síðasta í mínum huga er að hætta í svona starfi eða að hætta í fótbolta," sagði Roy Hodgson.

„Ég vil vera hérna og ég vil breyta hlutum hér. Það er mitt markmið að snúa við gengi liðsins og hjálpa félaginu og nýju eigendunum að ná þeim árangri sem þeir vilja ná. Það er ekkert öryggi í því að þjálfa í ensku úrvalsdeildinni og þú tekur ekki svona starf að þér öryggisins vegna heldur vegna þess að þú trúir því að þú getir staðið þig vel," sagði Hodgson.

Roy Hodgson, stjóri Liverpool.Mynd/Nordic Photos/Getty
„Ég bið aðeins um þolinmæði því ég þarf tíma til að snúa við skútunni ekki síst þar sem þetta hefur ekki byrjað vel. Ég hef fulla trú á því að ef að ég fæ tíma þá get ég komið félaginu aftur í hóp þriggja bestu liðanna," sagði Hodgson.

„Ótrúlegt en satt þá leit allt vel út fyrir þremur vikum og allir voru þá mjög jákvæðir. Skyndilega eftir tap á móti Newcastle og mjög slæmt tap á heimavelli á móti Wolves þá er allt breytt," sagði Hodgson og bætti við:

„Við skulum ekki tapa okkur í neikvæðninni þótt að við höfum tapað leik. Það er ekkert krísuástand. Við brugðumst okkur sjálfir á miðvikudaginn en við verðum að koma sterkri til baka og spila allt annan og betri leik á móti Bolton," sagði Hodgson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×