Enski boltinn

Ancelotti segir titilvonir liðsins enn litlar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ancelotti, stjóri Chelsea.
Ancelotti, stjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Carlo Ancelotti var varkár í viðtölum við enska fjölmiðla eftir 3-1 sigur liðsins á Blackpool í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Chelsea hefur nú unnið tvo leiki í röð og er með 51 stig í fjórða sæti deildarinnar - níu stigum á eftir toppliði United sem hefur tapað þremur af síðustu fimm deildarlekijum sínum. Þess fyrir utan hefur Chelsea spilað 28 leiki á tímabilinu en United 29.

„Við verðum að undirbúa okkur fyrir næsta leik og halda þannig áfram - taka einn leik fyrir í einu," sagði Ancelotti við enska fjölmiðla.

„Það er enn of fjarlægt fyrir okkur að velta einhverri titilbaráttu fyrir okkur. Það er auðveldara að hugsa bara um næsta leik."

„Við stóðum okkur vel og þetta var mikilvæg úrlsit fyrir okkur. Salomon Kalou hjálpaði okkur mikið og spilaði mjög vel. Fernando Torres og Didier Drogba stóðu sig einnig vel og voru hættulegir í leiknum."

Torres hefur þó ekki enn náð að skora fyrir Chelsea síðan hann var keyptur til liðsins á 50 milljónir punda frá Liverpool í lok janúar.

„Hann á eftir að bæta sig enn meira og skora. Það sem mestu skiptir er að hann passar vel inn í liði og spilar vel fyrir liðsheildina. Hann spilaði vel með Drogba og þeir passa vel saman. Við erum ánægðir með Torres."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×