Innlent

Öskumistrið liggur eins og teppi yfir jöklinum

MYND/Sigurjón
Vísindamenn sem fóru að eldstöðvunum í Grímsvötnum í morgun staðfesta að enn er þar smávægileg eldvirkni. Hún fer þó minnkandi. Sprengjuvirknin kemur í hviðum og öflugar sprengingar verða inn á milli.

Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, úr upplýsingafulltrúateymi Samhæfingarstöðvarinnar Almannavarna, segir ekkert hægt að fullyrða um hvenær gosinu ljúki. Allt eins megi búast við smávægilegri virkni í nokkra daga. Þá er aldrei hægt að útiloka að virknin taki við sér og aukist að nýju.

Vél Landhelgisgæslunnar fór í könnunarflugið með vísindamönnunum, og var meðal annars flogið upp á milli Vatnajökuls og Hofsjökuls. „Þeir sáu þar undir öskumistrið sem liggur eins og teppi yfir jöklinum," segir Hrafnhildur.

Vitað er til þess að áhugafólk og ferðamenn hafa lagt leið sína í átt að gosstöðvunum en vegna þess hversu óútreiknanlegar sprengingarnar eru er fólk hvatt til að fara ekki nær en að skála Jöklarannsóknafélagsins sem er í um 6 kílómetra fjarlægð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×