Fótbolti

Besti boxari heims býður Ray á bardaga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Manny Pacquiao.
Manny Pacquiao. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hnefaleikakappinn Manny Pacquiao er langstærsta stjarna Filippseyja og í raun algjör þjóðhetja í landinu. Þjóðlífið hreinlega lamast þegar hann stígur í hringinn. Pacquiao er farinn að mæta á flesta leiki hjá Ray Antony Jónssyni og félögum í landsliði Filippseyja og er í ágætu sambandi við þá.

„Hann bauð okkur á síðasta bardagann sinn, sem fór fram um daginn. Ég var búinn að fá fjóra miða en vinur minn var að gifta sig sömu helgi þannig að ég varð að gefa það frá mér að þessu sinni," sagði Grindvíkingurinn Ray.

Í maí er stefnt að því að Pacquiao mæti Floyd Mayweather, en það yrði stærsti hnefaleikabardagi sem fram hefur farið í mörg ár. Ray á möguleika á því að komast þangað í boði Pacquiao.

„Ég er búinn að tryggja mér miða á þann bardaga ef hann fer fram. Það er örugglega geðveikt að horfa á þetta á staðnum. Ég vona bara það besta og vonandi kemst ég til Las Vegas."

Margoft hefur verið reynt að láta verða af bardaga með þessum köppum en það hefur ekki gengið til þessa. Umboðsmenn kappanna eru þó nokkuð bjartsýnir á að það takist að þessu sinni og miðað við eftirspurnina sem verður eftir miðum á þennan viðburð er Ray afar heppinn að fá miða frá þjóðhetju Filippseyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×