Enski boltinn

Særðir United-menn vilja ná sér aftur á strik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney hefur ekki skorað í átta leikjum í röð.
Wayne Rooney hefur ekki skorað í átta leikjum í röð.
Alls fara sjö leikir fram í ensku úrvalsdeildinni í dag og tveir á morgun. Umferðinni lýkur svo á mánudagskvöldið með stórleik Chelsea og Manchester City á mánudagskvöldið.

Það vekur reyndar athygli að allir leikir dagsins eru á sama tíma, klukkan 15.00, en þá mun Manchester United freista þess að koma sér aftur á strik eftir vonbrigðin í Meistaradeildinni í vikunni. Þá féll liðið úr leik í keppninni, rétt eins og grannarnir í City.

United mætir Wolves í dag en stuðningsmenn liðsins fengu þær slæmu fréttir í gær að Nemanja Vidic, lykilmaður í vörn og fyrirliði liðsins, verður ekki meira með á tímabilinu þar sem hann er með slitið krossband.

Arsenal heldur upp á 125 ára afmælið sitt um helgina og mætir Everton á heimavelli. Liðið hefur spilað átta leiki í röð án þess að tapa og Robin van Persie hefur verið sjóðheitur með þrettán mörk í síðustu tíu leikjum sínum.

Liverpool tekur á móti Heiðari Helgusyni og félögum í QPR á Anfield í dag en Heiðar hefur sömuleiðis verið öflugur að undanförnu. Hann hefur skorað sex mörk í síðustu sjö deildarleikjum sínum og munu því varnarmenn Liverpool sjálfsagt hafa góðar gætur á kappanum.

Á morgun mætir Tottenham liði Stoke á útivelli en fyrrnefnda liðið er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir frábært gengi að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×