Innlent

Jarðvarminn sparar tugi milljarða á ári

Vatn er meðal helstu auðæfa Íslendinga. Ný hagfræðiúttekt dregur þá staðreynd fram á margvíslegan hátt. fréttablaðið/vilhelm
Vatn er meðal helstu auðæfa Íslendinga. Ný hagfræðiúttekt dregur þá staðreynd fram á margvíslegan hátt. fréttablaðið/vilhelm
Sparnaður af nýtingu jarðvarma til húshitunar á Íslandi á tímabilinu 1970 til 2010 er allt að 2.420 milljarðar króna, að mati Orkustofnunar. Nemur sparnaðurinn fyrir íslenskt samfélag því um 60 milljörðum að meðaltali á ári hverju á tímabilinu.

Þetta er ein af niðurstöðunum sem birtar eru í hagfræðilegri greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) á nýtingu vatns, sem unnin var að beiðni Umhverfisstofnunar. Verkefnið er liður í innleiðingu vatnatilskipunar sem samþykkt var sem hluti af EES-samningnum árið 2007.

Niðurstaða Orkustofnunar er efnahagslegur ávinningur af því að nýta jarðvarma til húshitunar borið saman við olíukyndingu. Tekið er fram í skýrslunni að margt geti haft áhrif á þessa mynd. Til dæmis að líklega væri minna kynt ef brenna þyrfti olíu til kyndingar. Í ljósi þessa segja skýrsluhöfundar að rétt sé að líta á útreikninga Orkustofnunar sem vísbendingu um sparnað.

Önnur staðreynd sem dregin er fram í skýrslu HHÍ er hversu auðugir Íslendingar eru af vatni. Áætlað er að ferskvatnsforði á hvern íbúa á Íslandi samsvari um 532 þúsund tonnum. Það er ríflega sexfaldur vatnsforði Norðmanna, sem næstir okkur koma af nágrannalöndunum. Vatnsforði Dana, Breta og Þjóðverja er tvö til þrjú þúsund tonn á hvern íbúa.

Greining HHÍ tekur til fjölmargra þátta. Kemur fram að á Íslandi sé stærstur hluti raforku framleiddur með vatnsaflsvirkjunum, eða um tólf þúsund GW stundir árið 2009. Um 4,5 þúsund GW stundir voru framleiddar með jarðvarma sama ár. Allar hitaveitur landsins dreifðu samtals um 140 þúsund rúmmetrum af heitu vatni árið 2008 til um 295 þúsund notenda. Innan við tíu prósent húsa voru tengd fráveitukerfi með hreinsibúnaði árið 1997 en 68 prósent árið 2006.

Heildarnýtingu á köldu vatni til heimilisnota er erfitt að meta þar sem rennslismælar eru ekki nýttir hér. Orkuveita Reykjavíkur telur að hver íbúi nýti um 200 lítra af köldu vatni á dag, eða 73 rúmmetra á ári. Almenningsveitur nýta mest kalt vatn, og er þá horft til mælinga frá 2003, eða um 80 milljónir rúmmetra árlega. Fiskeldi nýtir næstmest, 70 milljónir rúmmetra á ári, en stóriðja nýtti sextán milljónir rúmmetra af köldu vatni fyrir sína starfsemi. Heildartekjur af nýtingu vatns á Íslandi eru taldar nema 65,5 milljörðum til 79 milljarða króna á ári.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×