Innlent

Hjólastólnum stolið af fötluðum manni

Benedikt Hákon og aðstoðarkona hans voru í göngutúr í Elliðaárdal þegar hjólastól hans var stolið. fréttablaðið/stefán
Benedikt Hákon og aðstoðarkona hans voru í göngutúr í Elliðaárdal þegar hjólastól hans var stolið. fréttablaðið/stefán
„Ég er orðin svo gömul að ég er nánast alveg hætt að verða hissa yfir nokkrum hlut, en ég er mjög hissa yfir þessu. Ég trúi þessu eiginlega ekki,“ segir Dóra Bjarnason prófessor. Fatlaður sonur Dóru, Benedikt Hákon Bjarnason, varð fyrir því að hjólastól hans var stolið meðan hann brá sér í göngutúr með aðstoðarkonu sinni síðastliðinn þriðjudag.

Benedikt Hákon, sem býr ásamt aðstoðarfólki í vesturbæ Reykjavíkur, þarfnast aðstoðar við flestar daglegar athafnir og notar hjólastól mikið. „Sonur minn þarf þó að halda fótunum við og fer því í stuttan göngutúr, ásamt aðstoðarfólki, án hjólastólsins á hverjum degi,“ segir Dóra og bætir við að á þriðjudaginn hafi Benedikt Hákon og aðstoðarkona hans ákveðið að keyra í Elliðaárdalinn í göngutúr í ljósaskiptunum.

„Fyrst fóru þau í göngutúr með hjólastólinn og svo án hans, en hjólastóllinn stóð við hlið bílsins á meðan. Þegar þau komu aftur að bílnum að lokinni um tíu mínútna gönguför var hjólastóllinn horfinn. Þarna hefur einhver með skrýtið skopskyn verið að verki, því svona gerir ekki nokkur maður.“

Aðstoðarkona Benedikts Hákons tilkynnti þjófnaðinn til lögreglu og segist Dóra trúa því að hjólastóllinn skili sér að lokum. Benedikt Hákon notast nú við annan hjólastól sem hann fékk að láni hjá Hjálpartækjabankanum, þar sem Dóra segist hafa fengið snögga og frábæra þjónustu.- kg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×