Innlent

Funda með ESA um frestun dómsmáls

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason.
Íslendingar vísa til fyrri rökstuðnings varðandi Icesave í áliti sem sent verður ESA, eftirlitsstofnun EFTA. Taki stofnunin ekki tillit til röksemdanna fer málið fyrir dóm. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, heldur utan í næstu viku og fundar með yfirstjórn stofnunarinnar. Hann segir mikilvægt að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri, ekki síst þar sem ný yfirstjórn hefur tekið við.

„Við teljum ekki að svör ESA hafi með einhverjum hætti rýrt gildi þeirra raka sem við höfum sett fram og munum einfaldlega fara yfir þetta,“ segir Árni Páll.

Árni Páll segir að skynsamlegt væri ef stofnunin fengist til að bíða með frekari ákvarðanir í málinu þar til bú Landsbankans hefur verið gert upp. Hvort það takist sé annað mál og þá bíði dómsmál.

„Ég á nú ekki von á því að við snúum þeim í stórum efnislegum þáttum utan dóms. Það eru hins vegar efnislegar forsendur fyrir því að bíða og sjá hvað kemur úr búinu og taka síðan ákvörðun hvernig með málið skuli fara.“

Óformlegar viðræður hafa átt sér stað við Breta og Hollendinga um þá leið, en Árni Páll segir engar formlegar viðræður hafa átt sér stað, enda sé málið á forræði ESA.

„Við sjáum hins vegar enga ástæðu til þess að þetta þurfi að vera stór ásteytingarsteinn við Breta og Hollendinga. Við erum hins vegar alltaf til viðtals um það við þá að fresta málinu fyrir stofnuninni og skoða það að öðru leyti þegar niðurstöður úr búslitum liggja fyrir.“

- kóp



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×