Erlent

Efnahagsmál í brennidepli

Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra rauf þing í gær og efndi til kosninga. Stjórnarandstaðan hefur haft forskot í skoðanakönnunum um langa hríð.N
Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra rauf þing í gær og efndi til kosninga. Stjórnarandstaðan hefur haft forskot í skoðanakönnunum um langa hríð.N ordicPhotos/AFP
Helle Thorning-Schmidt
Kosið verður til þings í Danmörku hinn 15. september næstkomandi. Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra boðaði til kosninga í gær og tók þannig af skarið eftir margra vikna vangaveltur, en reglubundnar kosningar hefðu átt að fara fram í nóvember.

Rasmussen á þó erfitt verkefni fram undan, þar sem stjórnarflokkarnir Venstre og Íhaldsflokkurinn hafa misst talsvert fylgi yfir til vinstriflokkanna. Samkvæmt nýbirtri skoðanakönnun Ritzau myndu vinstriflokkarnir fá 96 af 179 þingsætum en flestar kannanir þar á undan höfðu gefið þeim 94 eða 95 sæti.

Verði það niðurstaðan verður Helle Thorning-Schmidt, formaður jafnaðarmanna, fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra þar í landi.

Ástæðan fyrir því að Rasmussen boðar nú til kosninga er að hann hefur ekki náð samkomulagi við Danska þjóðarflokkinn (DF), sem ver stjórnina falli, um aðgerðapakka til að efla efnahags- og atvinnulífið. Helst eru það hugmyndir stjórnarflokkanna um skattaafslátt vegna fasteignakaupa sem standa í DF, sem telur það of dýra aðgerð sem muni ekki skila nægu fé í ríkiskassann.

Flestir sérfræðingar danskra fjölmiðla eru sammála um að komandi kosningabarátta verði hörð og spennandi. Venstre og Íhaldsmenn hafa haldið um stjórnartaumana í Danmörku frá því að þeir sigruðu í kosningum árið 2001, en DF hefur varið minnihlutastjórn þeirra falli frá upphafi og fengið nokkru áorkað af sínum helstu baráttumálum í krafti þess, þar á meðal í málefnum innflytjenda.

Mál málanna verða þó eflaust efnahagsmálin því að fyrir liggur að næstu ár muni einkennast af aðhaldi. Stjórnmálaskýrandi Jótlandspóstsins sagði til dæmis að lykilorðin væru tvö: vöxtur og skuldir.

Vinstriflokkarnir segja að stjórnin þurfi að auka opinber umsvif til að örva vöxt og hækka skatta til að styðja við velferðarkerfið.

Venstre og íhaldsmenn leggja hins vegar ofuráherslu á að efnahagsástand Evrópu og heimsins sýni að skuldasöfnun hins opinbera sé varhugaverð.

thorgils@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×