Fótbolti

Danirnir eru pínu hræddir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen verður væntanlega í eldlínunni gegn Dönum í dag. Hér er hann á landsliðsæfingu í vikunni.
Eiður Smári Guðjohnsen verður væntanlega í eldlínunni gegn Dönum í dag. Hér er hann á landsliðsæfingu í vikunni. Fréttablaðið/Valli
Ísland mætir í dag Danmörku í 22. sinn frá upphafi. Karlalandsliðið í knattspyrnu hefur aldrei unnið sigur á Dönum sem er „stóra grýlan" í íslenskri knattspyrnu. En Ólafur Jóhannsson, landsliðsþjálfari, hefur það á tilfinningunni að nú gæti sú bið verið á enda.

„Auðvitað viljum við vinna Dani mest af öllum," sagði Ólafur. „Og við mætum til leiks með það hugarfar að við ætlum okkur sigur."

Ólafur tilkynnti í gær að Stefán Logi Magnússon mun verja mark Íslands en hann hélt hreinu í leiknum gegn Kýpur í mars. Þeir Rúrik Gíslason og Indriði Sigurðsson eru meiddir og spila ekki með í dag.

Þegar liðin mættust ytra í haust unnu Danir 1-0 sigur með ódýru marki í lok leiksins. Það hefur verið saga Íslands undanfarin ár – ágæt spilamennska en árangurinn lítill og stigin sérstaklega fá. Ísland er bara með eitt stig í undankeppni EM 2012 eftir fjóra leiki.

Ólafur vill að liðið þori að færa sig upp og láta reyna á sóknarleikinn. „Við höfum þurft að liggja til baka í okkar leikjum en hér heima verðum við að þora að sækja. Við munum fara með liðið framar á völlinn," sagði þjálfarinn. „Við gerum okkur grein fyrir því að við munum ekki pressa Dani í 90 mínútur en það er mikilvægt að byrja vel. Þeir eru pínu hræddir við okkur og við verðum að nýta okkur það – láta aðeins finna fyrir okkur."

Ólafur segir að hann muni leggja leikinn upp á svipaðan máta og hann gerði fyrir leikinn á Parken í haust. „Við spiluðum góðan varnarleik síðast og ætlum að sinna honum vel nú. Ég á einnig von á því að Danirnir verði svipaðir enda nánast með sama liðið auk þess sem að þeir hafa spilað eins undanfarinn áratug."

Hermann Hreiðarsson landsliðsfyrirliði segir að leikmenn séu ekki mikið að velta fyrir sér sögulegum staðreyndum.

„Það eina sem við vitum er að það er kominn tími til að vinna þá, eins og svo oft áður. Miðað við síðasta leik teljum við það alls ekki fjarstæðukennt," sagði Hermann.

„Við viljum fá stig enda búnir að spila fínan bolta. Það er hundfúlt að vera með bara eitt stig í riðlinum og við verðum einfaldlega að nýta okkur heimavelli og taka stig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×