Íslenski boltinn

KSÍ vill frekar fresta en fara með leiki inn í hús

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hér, á Kópavogsvelli, fer opnunarleikur Pepsi-deildarinnar fram 1. maí. Snjór var á honum í gærmorgun.
Hér, á Kópavogsvelli, fer opnunarleikur Pepsi-deildarinnar fram 1. maí. Snjór var á honum í gærmorgun. Fréttablaðið/Stefán
Veðurfarið á Íslandi síðustu daga er líklega ekki til þess að létta lund mótastjóra KSÍ. Það eru um tvær vikur í að Pepsi-deildin eigi að hefjast og enn snjóar reglulega og margir vellir eiga talsvert í land með að vera tilbúnir fyrir átökin.

Fréttablaðið hafði samband við Þóri Hákonarson, framkvæmdastjóra KSÍ, og spurði einfaldlega hvað sambandið ætlaði að gera ef tíðarfarið myndi ekki lagast og vellirnir væru hreinlega ekki hæfir til knattspyrnuiðkunar.

„Ef það verður snjór yfir öllu verður eðlilega að gera einhverjar ráðstafanir. Við gerum þó ekki ráð fyrir því. Við treystum á að upphituðu vellirnir komi vel undan þessu tíðarfari. Við munum þó skoða málin í næstu viku en stefnan í dag er að mótið byrji eins og áætlað er,“ sagði Þórir en hvað ætlar KSÍ að gera ef allt fer á versta veg? Kemur til greina að fara með leiki inn í knatthúsin?

„Að mínu viti er það ekki möguleiki núna enda ætlum við að halda okkar striki. Það eru ekki mörg hús sem gætu tekið við leik í Pepsi-deildinni. Við myndum eflaust ræða þetta við félögin en við myndum vilja færa leiki til frekar en að fara inn í hús þó svo húsin séu góð. Þetta er engin óskastaða en við vonum það besta,“ sagði Þórir Hákonarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×