Fótbolti

Argentínumenn hættir við að mæta Portúgölum á Emirates

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Vináttulandsleikur Argentínu og Portúgal í næsta mánuði mun ekki fara fram á Emirates-leikvanginum, heimavelli Arsenal, eins og áður hafði verið tilkynnt. Argentínska knattspyrnusambandið hefur nefnilega fært leikinn til Sviss.

Leikurinn fer fram 9. febrúar en þar mætast tveir af bestu knattspyrnumönnum heims með sínum landsliðunum, Lionel Messi og Cristiano Ronaldo, sem leika eins og kunnugt er með erkifjendunum Barcelona og Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni.

Nýi leikstaðurinn er Stade de Geneve í Genf en völlurinn tekur 30 þúsund manns í sæti en Emirates-leikvangurinn tekur tvöfalt fleiri áhorfendur.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Argentínumenn spila vináttulandsleik á þessum velli því þeir unnu 3-2 sigur á Englendingum á sama stað í nóvember 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×