Enski boltinn

Heiðar fær samkeppni - QPR að kaupa DJ Campbell frá Blackpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Helguson fagnar marki með QPR.
Heiðar Helguson fagnar marki með QPR. Mynd/Nordic Photos/Getty
Heiðar Helguson fær meiri samkeppni í framlínu Queens Park Rangers á komandi tímabili því Neil Warnock, stjóri QPR, er við það að kaupa DJ Campbell frá Blackpool.  Blackpool er búið að samþykkja tilboð QPR sem er líklega í kringum 1.25 milljónir punda.

DJ Campbell er 29 ára gamall og skoraði 13 mörk í 31 leik fyrir Blackpool í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Campbell lék áður Birmingham City og Leicester City en hið síðastnefnda lánaði hann til bæði Derby og Blackpool síðustu tvö árin af samningi hans þar.

Heiðar Helguson skoraði 13 mörk í 34 leikjum með Queen's Park Rangers í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð en Heiðar gerði nýjan eins ára samning við félagið í júní.

Neil Warnock er þegar búinn að fá tvo aðra leikmenn til QPR sem vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni í vor. Miðjumaðurinn Kieron Dyer og framherjinn Jay Bothroyd komu til liðsins í frjálsri sölu fyrr í sumar. Það verður því hart barist um framherjasætin í byrjunarliði QPR í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×