„Ég er allur að koma til," sagði U-21 landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson fyrir æfingu liðsins hér í Álaborg í morgun.
„Ég var frekar slappur á miðvikudaginn en betri í gær og fínn núna. Vonandi verð ég orðinn 100 prósent á morgun."
„Ég var auðvitað smá stressaður á miðvikudaginn þegar við vorum í rútunni í 5-6 tíma. Það hjálpaði ekki til. Ég verð væntanlega orðinn frískur í dag og er það mikill léttir."
Ísland mætir Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik á EM á morgun og á Gylfi von á erfiðum leik.
„Þau lið sem eru hingað komin eru sterk og býst ég því við hörkuleik. Stemningin verður nokkuð góð á vellinum og ég held að Geir Ólafs muni halda uppi söngnum í stúkunni," sagði hann og brosti.
„Varðandi Hvít-Rússana þá er þetta lið sem við getum bæði unnið og tapað fyrir. En við förum í hvern leik til að vinna."
„Næsti leikur er alltaf mikilvægasti leikurinn hjá okkur og þrjú stig á morgun væri frábært fyrir okkur. Það væri erfitt að tapa þeim leik og þurfa að ná í sex stig úr hinum tveimur leikjunum í riðlakeppninni."
„Við verðum að safna einhverjum stigum eins fljótt og mögulegt er til að fara upp úr þessum riðli."
„Hingað eru komin átta bestu landslið Evrópu og á ég því ekki von á því að mæta neinum veikum andstæðingi í þessari keppni."
