Enski boltinn

Beckham myndi ekki spila gegn United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham á æfingu í gær.
David Beckham á æfingu í gær. Nordic Photos / Getty Images

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, útilokar að David Beckham muni spila með liðinu gegn Manchester United um næstu helgi þó svo að Beckham fengi heimild til að spila með Tottenham fyrir þann tíma.

Beckham er í fríi frá keppni með liði sínu, LA Galaxy í Bandaríkjunum, og vill komast til Tottenham á lánssamningi þar til að nýtt tímabil hefst vestan hafs í mars næstkomandi.

Hins vegar er Galaxy ekki tilbúið að leyfa honum það nema að Tottenham samþykki að greiða himinháar greiðslur til að tryggja Beckham sem sleit hásin síðast þegar hann var í láni hjá AC Milan á Ítalíu.

Það getur þó verið að samningar takist á milli Tottenham og Galaxy síðar í vikunni en jafnvel þótt að það gerist mun Beckham ekki spila gegn sínu gamla félagi, United, um helgina.

„Hann er ekki í standi til að spila og það veit hann sjálfur best," sagði Redknapp við enska fjölmiðla. „Það mun taka hann nokkrar vikur til að komast aftur í það form sem hann er vanur að vera í."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×