Enski boltinn

Hvetur Redknapp til að styrkja liðið í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp.
Harry Redknapp. Mynd/Nordic Photos/Getty
Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, hefur hvatt knattspyrnustjórann Harry Redknapp að kaupa nýjan leikmann í janúar og þá leikmann sem getur skipt sköpum fyrir liðið á seinni hluta tímabilsins.

„Eigandinn vill víst að ég fari og eyði peningunum hans í leikmann sem getur gert gæfumuninn fyrir okkur en ég veit bara ekki hver sá leikmaður er," sagði Harry Redknapp.

„Ég veit hverjir slíkir leikmenn eru en þeir eru bara ekki til sölu. Við getum bara ekki farið og keypt suma leikmenn því liðin sem hafa slíka menn vilja að sjálfsögðu halda þeim," sagði Redknapp.

„Við erum ekki í þeirri aðstöðu að fara að örvænta en ég hef ekki áhuga á því að fá til mín leikmenn nema að þeir geti skilað einhverju til liðsins," sagði Redknapp.

„Við erum með góða leikmenn og leikmenn sem eru að verða betri sem er frábært. Bale hefur átt ótrúlegt ár, Luka Modric er búinn að vera frábær og svo erum við með Van der Vaart sem hefur verið stórkostlegur þegar hann hefur verið heill," sagði Redknapp.

"Það lítur út fyrir það að fimm lið muni berjast um fjögur sæti í Meistaradeildinni og það verður erfitt að keppa við liðin eins og Man United Chelsea, Arsenal eða Man City. Við viljum samt vera áfram meðal þeirra bestu og ætlum að komast aftur í Meistaradeildina," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×