Enski boltinn

Warnock ætlar að reyna að ná í Joe Cole til QPR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole hefur gert lítið annað en að æfa með Liverpool.
Joe Cole hefur gert lítið annað en að æfa með Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Neil Warnock, stjóri Queens Park Rangers, vonast til þess að eigandaskiptin hjá félaginu gefi honum færi á því að fá til sín Joe Cole, miðjumann Liverpool. Cole gæti því verið á leiðinni aftur til London eftir misheppnaða dvöl sína í Bítlaborginni.

Tony Fernandes, nýr aðaleigandi QPR, gerir sér grein fyrir því að nýliðarnir þurfi að styrkja sig fyrir átökin í ensku úrvalsdeildinni en liðið vann 1-0 sigur á Everton um helgina eftir að hafa steinlegið fyrir Bolton, 0-4, í fyrstu umferðinni.

Warnock stefnir á það að fá fimm nýja leikmenn til QPR áður en félagsskiptaglugginn lokast í enda mánaðarins og Joe Cole er efstur á óskalistanum. Cole spilaði aðeins níu deildarleiki með Liverpool á síðasta tímabili og Kenny Dalglish hefur ekki valið hann í hópinn í fyrstu tveimur leikjunum.

„Joe Cole? Við höfum kannski efni á 30 eða 40 prósent af launum hans núna. Stjórnarformaðurinn veit hverja ég vil fá og við erum að ræða möguleika okkar," sagði Neil Warnock í léttum tón.

„Það hefur verið algjör draumur að fá Tony Fernandes inn í félagið. Það hefur ekki oft gefist tækifæri til að skoða leikmenn sem maður hefur aðeins dreymt um að fá," sagði Warnock.

„Við ætlum ekki að eyða pening bara til að eyða pening. Stefnan er að fá flotta leikmenn til félagsins," sagði Warnock.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×