Innlent

Ráðuneytið bíður eftir upplýsingum frá Indlandi

Boði Logason skrifar
Innanríkisráðuneytið bíður eftir upplýsingum frá Indlandi. Þegar þær hafa borist er vonast til að Jóel geti fengið íslenskt vegabréf.
Innanríkisráðuneytið bíður eftir upplýsingum frá Indlandi. Þegar þær hafa borist er vonast til að Jóel geti fengið íslenskt vegabréf.
Innanríkisráðuneytið bíður eftir viðbrögðum indverskra stjórnvalda við fyrirspurn ráðuneytisins um forsjá Jóels Færseth Einarssonar, sem hefur verið fastur ásamt foreldrum sínum á Indlandi síðan í nóvember. Vonast er til að Jóel geti fengið íslenskt vegabréf þegar upplýsingar frá indverskum stjórnvöldum hefur borist.

Jóel er sonur Helgu Sveinsdóttur og Einars Þórs Færseth, en hann fæddist með aðstoð staðgöngumóður í Indlandi í nóvember á síðasta ári en staðgöngumæðrun er óheimil hér á landi.

Alþingi veitti Jóel íslenskan ríkisborgararétt skömmu fyrir jól en þrátt fyrir það fær hann ekki vegabréf. Í tilkynningu frá Innanríkisráðuneytinu segir að unnið hafi verið að því, í samvinnu við indversk stjórnvöld, að varpa ljósi á réttarstöðu barnsins.

Íslensk yfirvöld líta svo á að konan sem ól Jóel og eiginmaður hennar séu foreldrar hans hvað sem líður samningum um annað. Móðir Jóels sagði í Kastljósi í gær að hugsanlega vilji íslensk yfirvöld gefa þau skilaboð að þetta eigi ekki að vera auðveld leið fyrir fólk að eignast börn.

Í tilkynningunni frá ráðuneytinu segir hins vegar að íslensk stjórnvöld bíði eftir upplýsingum frá Indlandi og þegar þær hafi borist er vonast til að Jóel geti fengið íslenskt vegabréf, og komið heim til Íslands.

„Íslensk stjórnvöld sendu í lok desember, erindi til indverskra yfirvalda þar sem óskað er tiltekinna upplýsinga sem ætlað er að greiða úr óvissu um réttarstöðu barnsins, hvað varðar ríkisfang og hvort hin íslensku hjón fari með forsjá þess að indverskum lögum," segir í tilkynningunni.

„Þessar upplýsingar hafa ekki borist en þegar afstaða indverskra yfirvalda liggur fyrir er vonast til að unnt verði að afhenda íslensku hjónunum vegabréf barnsins."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×