Fótbolti

Eyjólfur: Gæti verið með tvo öfluga hópa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson segir að það hafi verið erfitt að velja þá 23 leikmenn sem fara með íslenska U-21 liðinu á Evrópumeistaramótið í Danmörku.

Mótið hefst þann 11. júní næstkomandi og mætir Íslandi liði Hvíta-Rússlands í fyrsta leik. Ísland er einnig með Sviss og Danmörku í A-riðli keppnininar.

„Þetta var mjög erfitt val. Við erum með mikið af efnilegum og góðum strákum í landinu. Ég gæti valið tvo 23 manna hóppa sem væru mjög öflugir," sagði Eyjólfur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Markmið okkar í keppninni er að komast upp úr riðlinum og svo ætlum við að sjá til. við ætlum fyrst og fremst að fara jákvæðir í þetta verkefni en það er einnig mikilvægt að leikmennirnir þekkist vel - að þeir séu búnir að spila þessa taktík og þekki hlaupaleiðir og önnur atriði varðandi okkar leikskipulag."

Þar sem enn er verið að spila í Pepsi-deildinni og margir í U-21 liðinu eru í A-landsliðinu sem mætir Dönum á laugardaginn kemur hópurinn ekki saman fyrr en miðvikudaginn 8. júní.

„Við höfum aðeins þrjá daga í undirbúning fyrir keppnina og því er það sérstaklega mikilvægt að leikmennirnir þekkist vel."

Eyjólfur útilokar ekki að hann gæti þurft að gera breytingar á hópnum áður en mótið hefst.

„Það eru enn eftir leikir í deildinni hér heima sem og landsleikurinn. Það gætu orðið skakkaföll í hópnum og menn þurfa því að vera tilbúnir ef kallið kemur."

En hann segir vitanlega erfitt að þurfa að skilja menn eftir heima. „Það eru alltaf ný „móment" í öllum fótbolta og menn eiga að stefna á næsta markmið. En það er ánægjulegt hvað við eigum mikið af efnilegum strákum og það eru spennandi tímar fram undan á Íslandi."

Hann segir að þessi hópur geti farið langt í Danmörku. „Strákarnir hafa sýnt það í keppninni hingað til. Þeir hafa spilað virkilega vel og gert flotta hluti. Ég hef því fulla trú á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×