Fótbolti

Englendingar vilja láta fresta forsetakosningunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enska knattspyrnusambandið hefur aukið á vandræði Sepp Blatter, forseta FIFA, með því að leggja til að forsetakosningunni sem átti að fara fram á morgun verði frestað.

Mikið hefur gengið á í herbúðum Alþjóða knattspyrnusambandsins síðustu daga og vikurnar vegna ásakana um spillingu og mútustarfssemi. Mótframbjóðandi Blatter í kjörinu, Mohamed Bin Hammam, dró sig úr kjörinu vegna ásakana um að hann hafi reynt að kaupa sér atkvæði.

Í gær hélt Sepp Blatter blaðamannafund þar sem hann gerði lítið úr vandamálum sambandsins og sagði það ekki vera í neinni krísu.

Í dag steig svo enska knattspyrnusambandið fram og sagði að fresta þyrfti kosningunni til að gefa öðrum frambjóðanda tíma og svigrúm til að gefa kost á sér.

Blatter hefur verið forseti FIFA í þrettán ár og hefur gefið út að næsta kjörtímabil verði hans síðasta ef hann nær kjöri. Knattspyrnusamband Íslands hefur gefið það út að það ætli að styðja Blatter í kosningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×