Fótbolti

Utan vallar: Er Ólafur okkar gæfu smiður?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Þegar Ísland situr á botni síns riðils með eitt stig af fimmtán mögulegum og með landsliðsþjálfara sem hefur unnið einn mótsleik af fimmtán síðan hann tók við, er eðlilegt að spyrja hvort hann sé rétti maðurinn til að finna lausnir á þeim erfiðleikum sem steðja að liðinu.

Það var þess vegna sem ég spurði Ólaf Jóhannesson landsliðsþjálfara einmitt að því eftir tapleikinn gegn Dönum á laugardaginn.

„Ja, nú segi ég eins og góður maður sagði – nú ertu farinn að tala um eitthvað annað en fótbolta og því get ég ekki svarað,“ var svarið sem ég fékk. Frekari útskýringar gaf hann ekki á því. Hann stóð upp og gekk út af blaðamannafundinum. Þrátt fyrir svar Ólafs snerist spurningin vitaskuld fyrst og síðast um fótbolta. Viðbrögðin lýsa manni sem átti engar skýringar á reiðum höndum.

Menn eru dæmdir af árangri sínum og árangurinn talar sínu máli. Það er hins vegar ekki úr vegi að ræða um þetta í réttu samhengi. Liðið hefur verið að spila ágætlega, hefur alls ekki lagt það í vana sinn að tapa stórt en sem fyrr vantar ákefð, bit og drifkraftinn til að reka smiðshöggið á sóknirnar. Við þurfum mann sem getur kallað fram þann þátt í leik íslenska liðsins.

Ólafur er nú á sínu fjórða starfsári og hefur ekki tekist það. Því þurfa þeir sem völdin hafa að taka ákvörðun um framhaldið – hvort það sé rétt að halda tryggð við þann þjálfara.

Sama hvaða skoðun menn kunni að hafa á landsliðinu – ekki er hægt að þræta fyrir eitt. Að það hafi verið á þriðja þúsund auð sæti á landsleik gegn Danmörku hlýtur að vera stórkostlegt áhyggjuefni fyrir KSÍ. Stemningin á leiknum var sorglega léleg og svo virðist sem áhugi almennings á landsliðinu sé í algeru lágmarki.

Fram undan eru gríðarlega spennandi tímar í íslenskri knattspyrnu og Evrópumeistaramót U-21 landsliðsins handan við hornið. Þjálfari A-landsliðsins er að taka við einhverjum besta hópi ungra íslenskra knattspyrnumanna sem þjóðin hefur séð og ábyrgðin er mikil.

Ef allt er með felldu innan raða Knattspyrnusambandsins verður að setja málefni A-landsliðsins í naflaskoðun.

Fyrsta mál á dagskrá á að vera hvort rétt sé að treysta núverandi þjálfara fyrir því verkefni. Sú spurning hlýtur að eiga rétt á sér og væri það stórkostlegt ábyrgðarleysi af hálfu forystu KSÍ að taka þessi mál ekki í allsherjar endurskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×