Mennirnir þrír sem voru handteknir á Hringbrautinni um klukkan ellefu í morgun tengjast vopnuðu ráni á Laugavegi ekki. Þetta segir varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynnt var um ofsakstur á bifreiðinni á Hringbrautinni og voru þrír menn sem voru í bílnum handteknir. Talið var í fyrstu að þeir myndu tengjast ráninu á Laugavegi en svo er ekki.
Ræningjarnir eru enn ófundnir og leitar lögregla þeirra.
Um klukkan hálf ellefu í morgun réðust þrír menn inn í úraverslunina Michelsen á Laugavegi 15. Þar ógnuðu þeir starfsfólki með byssum og brutu þar skápa og rændu fjölmörgum dýrum úrum og armböndum.
Lögregla var kölluð á staðinn og skoðaði meðal annars öryggismyndavélar úr versluninni.
Lögreglumenn fundu svo skömmu síðar mannlausa bifreið, sem mennirnir notuðu við ránið, í Þingholtunum í Reykjavík.
Í henni voru tvær leikfangabyssur en samkvæmt heimildum fréttastofu lá önnur eftirlíking af byssu á á gólfi í versluninni þegar lögreglumenn komu á vettvang. Ekki liggur ljóst fyrir hvort að mennirnir hafi hugsanlega haft alvöru skotvopn undir höndum en rannsókn stendur enn yfir á málinu.
Bifreiðin sem mennirnir notuðu í ránið er af gerðinni Audi og er dökkblá á litin. Henni var stolið í Gnoðarvoginum í gærkvöldi.
Þegar lögreglumenn voru að rannsaka vettvang inni í versluninni hlupu nokkrir þeirra skyndilega út og fóru upp í lögreglubíla og brunuðu af stað.
Stuttu síðar bárust fréttir af því að þrír menn hafi verið handteknir á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu. En samkvæmt frystu fréttum var talið að þeir myndu tengjast ráninu en svo er ekki við frekari rannsókn.
Lögregla rannsakaði einnig íbúðarhús í Vesturbæ Reykjavíkur í tengslum við ránið.
Mennirnir, og þýfið sömuleiðis, eru ófundnir og er rannsókn enn í fullum gangi.