Enski boltinn

Giggs: Reynslan nýtist United vel í titilbaráttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ryan Giggs er viss um að það muni hjálpa Manchester United í titilbaráttunni á móti Manchester City að liðið búi yfir meiri reynslu af því að spila undir pressu. Manchester-liðin eru jöfn að stigum á toppnum en United-menn hafa nýtt sér það að City-liðið hefur verið að tapa stigum að undanförnu.

„Reynsla stjórans, leikmannahópsins og starfsmannanna er það sem til þarf í lokabaráttuna um titilinn auk hungurs og löngunnar eftir að vinna titla. Við höfum það og það mun hjálpa okkur," sagði Ryan Giggs í viðtali á heimasíðu Manchester United en hann hefur orðið tólf sinnum ensku meistari á ferlinum.

„Stórir leikmenn geta ekki beðið eftir stóru leikjunum. Þegar líður að lokum tímabilsins þá verða leikirnir alltaf stærri og stærri. Ég vil fá að spila slíka leiki og fá að taka þátt í því að berjast um titilinn. Þess vegna er maður nú í fótboltanum," sagði Giggs.

Giggs viðurkennir að menn hjá United séu pirraðir yfir því að hafa dottið út úr Meistaradeildinni og enska deildarbikarnum en segir jafnframt að gengið í deildinni sé ásættanlegt.

„Við höfum byrjað vel í deildinni. City hefur augljóslega byrjað betur en við erum ánægðir með hvar við erum í töflunni og mjög sáttir með gengið upp á síðkastið. Við þurfum bara að gefa í eins og við gerum oftast á þessum tíma, vera aðeins heppnari með meiðsli og ná góðum spretti eftir hátíðarnar," sagði Giggs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×