Fótbolti

Szczesny: Ætlar að safna hári ef Pólland lendir á móti Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wojciech Szczesny er alltaf til í að bregða á leik.
Wojciech Szczesny er alltaf til í að bregða á leik. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wojciech Szczesny, markvörður Arsenal og pólska landsliðsins, vill endilega lenda í riðli með Englendingum á Evrópumótinu sem fram fer í Póllandi og Úkraínu næsta sumar. Það verður dregið í riðla seinna í dag.

Szczesny segist ætla að heiðra gamla pólska markvörðinn Jan Tomaszewski verði hann að ósk sinni. Brian Clough kallaði Tomaszewski á sínum trúð en hann spilaði með mikið hár og vakti mikla athygli í jafntefli á móti enska landsliðinu í undankeppni HM 1974.

Úrslit í þeim leik urðu til þess að enska landsliðið komst ekki á HM en Pólverjar fóru alla leið og urðu í þriðja sæti á HM í Vestur-Þýskalandi 1974.

„Ég hef sagt strákunum í liðinu að ég mun safna hári ef við lendum í riðli með Englandi. Það væri frábært. Það ættu allir á Englandi að muna eftir markverðinum sem spilaði á Wembley 1973. Ég mun safna hári eins og hann og reyna síðan að standa mig jafnvel," sagði Wojciech Szczesny.

„Ég þarf kannski að spila með hárkollu ef ég næ ekki að safna nógu hári fyrir leikina næsta sumar," bætti Szczesny við í léttum tón.

Pólland er í efsta styrkleikaflokki ásamt Spáni, Hollandi og hinum gestgjöfunum sem er Úkraína. England er í öðrum styrkleikaflokki með Ítalíu, Þýskalandi og Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×