Enski boltinn

Ferguson: Megum ekki hlusta á gagnrýnendur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nani fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Nani fagnar sigurmarki sínu í kvöld.

Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, hefur sagt leikmönnum sínum að gefa gagnrýnendum liðsins langt nef og einbeita sér frekar að því að endurheimta enska meistaratitilinn.

United hefur ekki tapað í síðustu 20 leikjum og er með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar eftir sigurinn á Stoke í kvöld.

Þó svo gengi United sé gott verður seint sagt að liðið sé að bjóða upp á mikla flugeldasýningu.

"Það er auðvelt að koma með svona gagnrýni. Við verðum að ýta slíkri gagnrýni til hliðar og einbeita okkur að okkar markmiðum sem er að vinna titilinn," sagði Ferguson.

Tony Pulis, stjóri Stoke, sagði alveg ljóst að Man. Utd kynni að klára leiki.

"Þetta lið kann að vinna leiki. Hugarfarið er rétt hjá öllum í þessu félagi. Það gefur liðinu ákveðið forskot og það klárar leiki þó svo það spili ekki alltaf vel," sagði Pulis.

Javier Hernandez átti flotta innkomu í lið United og gerði það sem hann á að gera - að skora.

"Frammistaða Hernandez gerir það að verkum að ég fæ hausverk þegar Wayne Rooney verður aftur orðinn heill. Maður vill samt glíma við svona vandamál. Það er starf Chico að skora og vonandi heldur hann áfram að skora svo ég verði með hausverk eitthvað lengur," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×