Enski boltinn

Messan: Eiður Smári ræðir um framtíðina og íslenska landsliðið

Eiður Smári Guðjohnsen var gestur í Sunnudagsmessunni á Stöð 2 sport 2 í gærkvöld og þar ræddi knattspyrnumaðurinn um framtíðaráform sín. Eiður er að jafna sig eftir fótbrot sem hann varð fyrir í leik með gríska liðinu AEK um miðjan október s.l. en hann gerði samning til tveggja ára við AEK s.l. sumar.

„Í rauninni fer þetta allt eftir meiðslunum og hve fljótur ég verð að jafna mig. Þetta lítur allt vel út og ég er bjartsýnn. Ég þarf að bíta á jaxlinn, sýna þolinmæði og leita innra með mér að ég ætli að koma sterkur til baka, njóta þess að spila fótbolta, snúa dæminu við. Undanfarin ár hafa ekki verið mín bestu ár í fótboltanum og ég ætla að enda þetta á jákvæðum nótum."

Guðmundur Benediktsson spurði Eið hvort að tíminn hafi ekki verið erfiður að undanförnu eftir alla velgengnina hjá Chelsea og Barcelona. Þar kom andlegi þátturinn inn í umræðuna.

„Ég er ennþá léttur," svaraði Eiður Smári og brosti. „Þetta er bara reynsla, og gefur manni kjaftshögg að ég er ekki alveg tilbúinn að hætta á þessum nótum. Það hjálpar mér í þessum meiðslum að koma sterkari til baka."

Eiður var einnig inntur eftir landsliðsmálunum en Lars Lågerbäck tók nýverið við landsliðsþjálfarastarfinu.

„Ég hef alltaf sagt það að ef landsliðsþjálfarinn velur mig þá spila ég með landsliðinu. Ég verð kannski eitthvað aftar á vellinum en áður, en á meðan ég er valinn kem ég glaður í landsleiki," sagði Eiður en hann hefur verið í samskiptum við landsliðsþjálfarann í gegnum tölvupósta.

„Hann skrifar fína ensku og ég fann engar stafsetningavillur," sagði Eiður en hann er ánægður með ráðninguna. „Ég held að það sé bara jákvætt fyrir okkur Íslendinga að breyta til og öðlast öðruvísi reynslu og vonandi að uppskeran verði eftir því," sagði Eiður Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×