Enski boltinn

Ryan Babel sættir sig við kæru enska sambandsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Babel.
Ryan Babel. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollendingurinn Ryan Babel hjá enska úvalsdeildarliðinu Liverpool ætlar ekki að gera athugasemd við kæru aganefnd enska knattspyrnusambandsins á hendur honum. Babel fer fyrir aganefndina fyrir það að birta mynd af dómaranum Howard Webb í Manchester United búningi inn á twitter-síðu sinni.

Babel gæti átt í vændum peningasekt og leikbann en hann mun koma fyrir aganefndina á mánudaginn og segir þá sína hlið á málinu. Það hafa ekki allir verið sáttir við hversu hart var tekið á Babel en hann er fyrsti maðurinn til að vera kærður fyrir skrif inn á samskiptasíðu eins og twitter.

Babel var mjög ósáttur við dómgæslu Howard Webb í bikarleiknum á móti Manchester United á sunnudaginn en Webb dæmdi víti á Liverpool á fyrstu mínutu leiksins og rak síðan fyrirliðanna Steven Gerrard af velli eftir hálftíma leik. Babel setti myndina inn á twitter-síðu sína skömmu eftir leikinn en meira en 166 þúsund manns eru skráð fylgjendur á síðunni.

„Og þeir segja að hann sé einn besta dómarann. Það er brandari," skrifaði Babel undir myndinni. Babel fjarlægði síðan færsluna og bað Webb afsökunar. „Ég biðst afsökunar ef einhver tók myndina alvarlega. Þetta voru bara viðbrögð mín eftir slæman tapleik," skrifaði Babel en slapp engu að síður ekki við kæruna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×