Enski boltinn

Matthías lánaður til Colchester

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Matthías í leik með FH gegn Val á síðustu leiktíð.
Matthías í leik með FH gegn Val á síðustu leiktíð. Mynd/Daníel
Matthías Vilhjálmsson hefur verið lánaður til enska C-deildarliðsins Colchester til 1. apríl næstkomandi.

Matthías var hjá liðinu til reynslu í nóvember síðastliðnum og eftir það vaknaði áhugi hjá forráðamönnum Colchester að fá hann að láni frá bikarmeisturum FH.

Hann staðfesti í samtali við Vísi að aðeins ætti eftir að skrifa undir pappírana en að hann fengi þá í hendurnar á morgun.

Matthías sagði enn fremur að Colchester ætti möguleika á að kaupa sig frá FH en yrði að taka ákvörðun um áður en lánstíminn rennur út.

Það er því enn möguleiki á því að Matthías komi aftur heim til Íslands áður en tímabilið í Pepsi-deildinni hefst þann 1. maí.

Colchester er í ellefta sæti ensku C-deildarinnar með 31 stig eftir 21 leik. Liðið er þó aðeins tveimur stigum frá sjötta sæti sem veitir umspilsrétt í lok tímabilsins.

Liðið hefur þó ekki unnið fjóra leiki í röð í deildinni og gæti Matthías fengið tækifæri í liðinu þegar það mætir Bournemouth þann 14. janúar næstkomandi. Matthías heldur utan á mánudaginn.

Colchester mætir Swansea, sem er í toppbaráttu ensku B-deildarinnar, í 3. umferð ensku bikarkeppninnar á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×