Enski boltinn

Knattspyrnufélög eru ekki leikföng ríka fólksins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlo Ancelotti þykir valtur í sessi.
Carlo Ancelotti þykir valtur í sessi. Nordic Photos / Getty Images
Samtök knattspyrnustjóra í Englandi eru ekki ánægð með að stjórar félaganna séu yfirleitt einir um að taka ábyrgð á slæmu gengi sinna liða og að eigendur félaganna þurfi að skoða sínar vinnuaðferðir upp á nýtt.

Nú þykja fjórir knattspyrnustjórar í ensku úrvalsdeildinni vera valtir í sessi. Þetta eru þeir Roy Hodgson (Liverpool), Gerard Houllier (Aston Villa), Carlo Ancelotti (Chelsea) og Avram Grant (West Ham).

Richard Bevan, yfirmaður samtakanna, skrifaði nýverið grein þar sem hann gagnrýndi vinnuaðferðir knattspyrnufélaganna og sérstaklega eigenda þeirra.

„Það verður að skoða frammistöðu liðanna í réttu ljósi - út frá markmiðum sem sett voru sameiginlega og frá raunhæfum kröfum sem hægt er að gera til liðsins."

„Á öllum öðrum sviðum viðskiptalífsins er það vel þekkt að þau fyrirtæki ná árangri sem vinna sameiginlega að sínum markmiðum og hafa góða sýn á framtíðina."

„En það er sú óskiljanlega tilhneiging í knattspyrnuheiminum að fórna knattspyrnustjóranum í þeirri von að nýr stjóri muni snúa við gengi liðsins."

Alls hafa 29 knattspyrnustjórar á Englandi hætt hjá sínum félögum á tímabilinu til þessa, þar af nítján verið reknir.

Bevan segir að rannsóknir hafi sýnt að nýr stjóri nái að hala inn að meðaltali 2,5 stigum áður en liðið fari aftur að spila enn verr og það gerði áður en gamli stjórinn var rekinn.

„Knattspyrnufélög eru ekki leikföng hinna moldríku," skrifar Bevan. „Það er rándýrt að reka knattspyrnustjóra enda hefur það sýnt sig að félög í neðri deildunum hafa einfaldlega ekki efni á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×