Fótbolti

Spánverjar Evrópumeistarar U-21 liða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Spánverjar fagna öðru marka sinna í dag.
Spánverjar fagna öðru marka sinna í dag. Nordic Photos / AFP
Spánn varð í dag Evrópumeistari landsliða skipuðum leikmönnum 21 árs og yngri eftir sigur á Sviss, 2-0, í úrslitaleiknum sem fór fram í Árósum í Danmörku.

Ander Herrera kom Spáni yfir á 41. mínútu leiksins er hann skoraði laglegt skallamark af stuttu færi eftir fyrirgjöf Didac Villa frá vinstri kantinum.

Þetta var fyrsta markið sem Svisslendingar fengu á sig í mótinu og voru þeir búnir að halda hreinu í 431 mínútu áður en Herrera skoraði.

Svisslendingum gekk annars illa að ógna marki Spánverja sem stjórnuðu leiknum lengst af. Alberto Botia fékk gullið tækifæri til að gera út um leikinn fyrir þá spænsku þegar hann fékk nánast frían skalla á markteig á 75. mínútu en hitti ekki markið.

Stuttu síðar fékk Sviss tvö fín færi með stuttu millibili, í bæði skiptin eftir aukaspyrnu Xherdan Shaqiri. En í bæði skiptin fór boltinn fram hjá.

Á 81. mínútu kom svo markið sem gerði tryggði Spánverjum endanlega sigurinn. Thiago Alcantara, leikmaður Barcelona, skoraði þó beint úr aukaspyrnu. Alcantara var fljótur að átta sig þegar hann sá að Yann Sommer, markvörður Sviss, var illa staðsettur og náði að lyfta boltanum yfir hann.

Þar við sat og Spánverjar bættu enn einum titlinum í safnið, en A-landslið Spánar er ríkjandi heims- og Evrópumeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×