Enski boltinn

Gerrard hlakkar til að kveðja 2011

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Árið 2011 hefur ekki verið neitt sérstakt hjá Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool, en hann hefur lítið getað spilað með liðinu í ár vegna þrálátra meiðsla.

„Það er alveg ljóst að ég verð mjög ánægður með að geta kvatt þetta ár. Þetta hefur verið erfitt en er núna hluti af minni fortíð," sagði Gerrard við enska fjölmiðla. Hann gekkst undir agðerð vegna meiðsla í nára í mars síðastliðnum og fékk svo sýkingu í ökkla skömmu eftir að hann byrjaði að spila aftur í október.

Gerrard er nýkominn aftur af stað en Kenny Dalglish, stjóri liðsins, ætlar að hlífa honum fyrst um sinn.

„Það er bara gott að vera byrjaður aftur að spila," sagði Gerrard. „Þetta hefur verið eins og versta pynting fyrir mig. Ég var margar vikur að jafna mig á því þegar ég frétti í október að ég myndi vera frá í átta vikur til viðbótar."

„Ég hlakka mikið til að spila á ný. Dagarnir hjá mér hafa margir verið ansi einmannalegir í ræktinni en ég hef lagt mjög mikið á mig síðustu átta vikurnar og finnst ég vera tilbúinn í slaginn á ný."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×