Enski boltinn

City vill losna við Onuoha og Bridge | Tevez-málið mögulega að klárast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bridge, til vinstri, gerir lítið en að æfa þessa dagana.
Bridge, til vinstri, gerir lítið en að æfa þessa dagana. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini hefur staðfest að Manchester City vilji losna við varnarmennina Wayne Bridge og Nedum Onuoha nú í janúar.

Bridge hefur staðhæft að Mancini neiti að ræða við sig en því neitar sá síðarnefndi. „Það er ekki rétt. Ég sagði Wayne fyrir tveimur árum síðan að hann væri ekki í okkar framtíðarplönum. Ef hann vildi spila þá þyrfti hann að fara eitthvert annað," sagði Mancini við enska fjölmiðla í morgun.

Bridge hefur þó haldið kyrru fyrir hjá City og þiggur um 90 þúsund pund á viku fyrir það. Mancini hefur gefið í skyn að Bridge neiti að fara launanna vegna. Núverandi samningur hans rennur ekki út fyrr en í júní 2013.

Mancini sagði einnig að það væri möguleiki á því að Carlos Tevez færi til AC Milan á næstu 10 dögum. „Við vonum að Milan taki hann," sagði Mancini en ítrekaði að lánssamningur kæmi ekki til greina - Milan þyrfti að kaupa hann.

„Það er möguleiki á því að þetta mál verði klárað á næstu 7-10 dögum en ég veit það ekki fyrir víst. Þeir fá hann þó ekki á láni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×