Enski boltinn

PSG hefur áhuga á Tevez - City vill ekki lána hann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City.
Carlos Tevez í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Brasilíumaðurinn Leonardo, yfirmaður knattspyrnumála hjá franska félaginu Paris Saint-Germain, segir að áhugi sé til staðar hjá félaginu til að fá Carlos Tevez frá Manchester City.

Leonardo segir hins vegar að hann hafi fengið að vita hjá umboðsmönnum Tevez að hann hafi frekar áhuga á að ganga til liðs við AC Milan.

AC Milan hefur hins vegar fyrst og fremst áhuga á lánssamningi við Manchester City en enska félagið hefur ekki áhuga á því. Það vill bara selja hann.

„PSG hefur ekki lagt fram tilboð í Tevez en við höfum lagt inn fyrirspurn,“ sagði Leonardo við franska fjölmiðla. Eigendur PSG eru moldríkir olíufurstar frá Katar og hafa lagt mikinn pening í félagið að undanförnu.

„En Manchester City vill selja hann. Ef City samþykkir hann að lána hann til AC Milan er málinu lokið. Ef ekki er markaðurinn opinn.“

Forráðamenn AC Milan tilkynntu í gær að beiðni þeirra um að fá Tevez að láni frá City hafi verið hafnað. Félagið hefur þó ekki gefist upp og búast forráðamenn þess við löngum samningaviðræðum um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×