Fótbolti

Samuel Eto´o dæmdur í fimmtán leikja landsleikjabann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Eto'o.
Samuel Eto'o. Mynd/Nordic Photos/Getty
Samuel Eto´o, fyrirliði landsliðs Kamerún, var í dag dæmdur í fimmtán leikja landsleikjabann fyrir þátttöku sína í verkfallsaðferðum landsliðsmanna Kamerún í síðasta mánuði.

Samuel Eto´o og félagar hans í landsliðinu neituðu að ferðast til Alsír fyrir vináttuleik sem átti að fara fram 15. nóvember en kamerúnska landsliðið var þá nýbúið að taka þátt í æfingamóti í Marokkó. Landsleiknum við Alsír var í kjölfarið frestað.

Eto´o fékk langþyngstu refsinguna sem leiðtogi hópsins en varafyrirliðinn Enoh Eyong fékk tveggja leikja bann og Benoit Assou-Ekotto fékk tæplega tvö þúsund dollara sekt. Leikmennirnir hafa tíu daga til að áfrýja dómnum.

Eto´o er þrítugur og er nú leikmaður með Anzhi Makhachkala í Rússlandi. Hann hefur verið besti leikmaður Kamerún í mörg ár og liðið mun sakna hans mikið í undakeppni HM 2014. Kamerún komst hinsvegar ekki í úrslitakeppni Afríkukeppninnar í byrjun næsta árs.

Samuel Eto´o hefur leikið 109 landsleiki og skorað í þeim 54 mörk. Hann hefur fjórum sinnum verið kosinn besti knattspyrnumaður Afríku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×