Fótbolti

Dregið í úrslitakeppni EM 2012 í dag - í beinni á Eurosport

Mynd/Nordic Photos/Getty
Það verður mikil spenna í loftinu í Kiev í dag þegar dregið verður í riðla fyrir úrslitakeppni Evrópumótsins í fótbolta sem fer fram í Póllandi og Úkraínu næsta sumar. Sextán lið komust í úrslitakeppnina og verður þeim raðað niður í fjóra fjögurra liða riðla.

Að venju mun UEFA bjóða upp á flotta umgjörð í kringum dráttinn og verður hægt að fylgjast með honum í beinni útsendingu á Eurosport sem er á stöð 40 inn á Fjölvarpinu. Athöfnin hefst klukkan 17.00 að íslenskum tíma.

Gestgjafar Póllands og Úkraínu eru báðir í fyrsta styrkleikaflokki sem þýðir að mjög sterkar þjóðir geta lent í riðli með Spáni og Hollandi, hinum tveimur þjóðunum sem eru í fyrsta styrkleikaflokki.

Englendingar eru í öðrum styrkleikaflokki ásamt Þýskalandi, Ítalíu og Rússlandi. Englendingar gætu verið heppnir og lent í riðli með Póllandi, Grikklandi og Tékklandi en þeir gætu líka verið afar óheppnir og lent í riðli með Spáni, Portúgal og Frakklandi.

Spánverjar eru núverandi Evrópumeistarar og eiga að möguleika á því að lenda í riðli með síðustu þremur Evrópumeisturum á undan þeim: Grikkland (2004), Frakkland (2000) og Þýskaland (1996).

Styrkleikaflokkarnir fyrir dráttinn í dag:

1: Spánn, Holland, Pólland, Úkraína

2: Þýskaland, Ítalía, England, Rússland

3: Króatía, Grikkland, Portúgal, Svíþjóð

4: Danmörk, Frakkland, Tékklandi, Írland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×