Enski boltinn

Leikbann Rooney stytt í tvo leiki - getur spilað gegn Úkraínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rooney er á leiðinni á EM með Englandi.
Rooney er á leiðinni á EM með Englandi. Nordic Photos / Getty Images
Áfrýjunarnefnd Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, ákvað á fundi sínum í Sviss í morgun að leikbann Wayne Rooney verði stytt úr þremur í tvo leiki.

Þetta eru góð tíðindi fyrir enska landsliðið en Rooney fékk upphaflega þriggja leikja bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í leik Englands og Svartfjallalands í undankeppni EM 2012.

Það hefði þýtt að Rooney hefði misst af öllum leikjum Englands í riðlakeppninni í sumar. Hann verður í banni þegar að England mætir Frakklandi og Svíþjóð en getur svo spilað í leiknum gegn Úkraínu.

Þetta ætti líka að taka allan vafa um hvort að Fabio Capello velji Rooney í EM-hóp Englands en hann hefur þótt einn allra besti leikmaður enska landsliðsins undanfarin ár.

Þetta ætti að vera huggun harmi gegn hjá Rooney en lið hans, Manchester United, féll úr leik í Meistaradeild Evrópu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×