Enski boltinn

Ruiz: Hafði víst áhuga á Fulham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ruiz í leik gegn Liverpool.
Ruiz í leik gegn Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Bryan Ruiz, sóknarmaður Fulham, hefur dregið ummæli sín í land þess efnis að hann hafi aðeins samið við liðið peninganna vegna.

Haft var eftir Ruiz í hollensku tímariti að hann hafi frekar viljað fara til Tottenham. „Ég vildi alls ekki fara til Fulham. Ég var ánægður með að Tottenham hafi sýnt mér áhuga. Það er draumafélag.“

Ruiz er 26 ára gamall og kemur frá Kostaríka. Hann var á mála hjá FC Twente í tvö ár áður en hann samdi við Fulham í sumar. Þá höfðu önnur lið á Englandi sýnt honum áhuga.

„Ég vil segja stuðningsmönnum Fulham að eftir að Fulham sýndi mér áhuga vildi ég koma hingað, þrátt fyrir áhuga annarra félaga. Ég vildi bara fara til Fulham,“ sagði Ruiz við enska fjölmiðla. „Sannleikurinn er sá að ég er mjög ánægður hjá Fulham. Mér finnst að ég sé byrjaður að sýna mitt rétta andlit.“

Ruiz kostaði Fulham 10,6 milljónir punda en hann hefur aðeins skorað eitt mark síðan hann kom í ágúst síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×