Enski boltinn

Launagreiðslur leikmanna Hearts tefjast enn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Gunnþór, lengst til hægri, í leik Hearts og Tottenham í forkeppni Evrópudeildar UEFA í ágúst síðastliðnum.
Eggert Gunnþór, lengst til hægri, í leik Hearts og Tottenham í forkeppni Evrópudeildar UEFA í ágúst síðastliðnum. Nordic Photos / Getty Images
Eggert Gunnþór Jónsson og félagar í skoska úrvalsdeildarfélaginu Hearts hafa ekki enn fengið greidd laun fyrir nóvembermánuð. Félagið hefur ekkert gefið út um hvenær von sé á greiðslunum.

Launin áttu að berast þann 16. nóvember síðastliðinn en enn bólar ekkert á þeim. Launagreiðslurnar fyrir október áttu að berast þann 16. október en skiluðu sér ekki inn á bankabækur leikmanna fyrr en 4. nóvember síðastliðinn.

Það stefnir því allt í að leikmenn fái ekki greidd laun fyrir desember á tilsettum tíma og er formaður leikmannasamtakanna í Skotlandi að missa þolinmæðina.

„Leikmennirnir hafa verið til fyrirmyndar og vinnubrögð þeirra afar fagmannleg,“ sagði formaðurinn Fraser Wishart. „En núverandi ástand er ekki líðandi og þetta getur ekki haldið áfram á þessum nótum.“

„Það er ekki hægt að ætlast til þess að leikmenn haldi áfram að mæta á æfingar og í leiki án þess að fá launin sín greidd.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hearts lendir í vandræðum með launagreiðslur en eigandinn, Vladimir Romanov, gaf það út í síðasta mánuði að hann vilji selja félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×