Innlent

Jón er enn ráðherra

Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sagði eftir þingflokksfund Vinstri grænna sem lauk rétt fyrir klukkan þrjú í dag, að hann væri enn í embætti. Mikill styr hefur staðið um störf Jóns síðustu daga og hefur hann verið harðlega gagnrýndur af samfylkingarfólki en einnig af nokkrum samflokksmönnum sínum.

Í Fréttablaðinu í dag sagði að framtíð Jóns myndi sennilegast ráðast á fundinum. Að fundi loknum sagðist Jón enn vera ráðherra. Hann sagði ennfremur að störf hans hefðu verið rædd og að menn hafi skipst á skoðunum. Hann væri hinsvegar enn í embætti og að annað standi ekki til í þeim efnum.

Þeir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra báðust undan því að tjá sig strax um fundinn en þeir voru á leið í fyrirspurnartíma í sal Alþingis.


Tengdar fréttir

Jón Bjarna segist njóta fulls trausts

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist njóta fulls trausts Steingríms J. Sigfússonar til að vera áfram í ríkisstjórninni. Þá segist hann gera ráð fyrir að njóta trausts forsætisráðherra þó hún hafi gagnrýnt störf hans.

Veruleg óánægja með Jón Bjarnason í ríkisstjórninni

Mikil óánægja er innan ríkisstjórnarinnar með framgöngu Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í tengslum við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir ekki hægt að líða vinnubrögð Jóns.

Þingflokkar Samfylkingar og VG funda

Þingflokkur Vinstri grænna situr nú á fundi en á honum mun Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, þurfa að gefa skýringar á því að hafa unnið að nýju frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða án vitneskju ríkisstjórnarinnar. Þingflokkur Samfylkingarinnar fundar einnig um málið á Alþingi núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×