Fótbolti

Wales-liðið í stuði í 4-1 sigri á Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale skoraði eitt mark og lagði upp annað.
Gareth Bale skoraði eitt mark og lagði upp annað. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gary Speed er að gera góða hluti með landslið Wales því liðið fylgdi eftir sigri í tveimur síðustu leikjum sínum í undankeppni EM með því að vinna 4-1 sigur á Noregi í vináttulandsleik á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff í dag.

Gareth Bale og Craig Bellamy komu Wales í 2-0 með mörkum með fimm mínútna millibili í upphafi leiksins en Norðmönnum tókst að minnka muninn í seinni hálfeiknum áður en varamaðurinn Sam Vokes gerði út um leikinn með tveimur mörkum í lokin.

Norðmenn eru í 24. sæti á Styrkleikalista FIFA eða 21 sæti ofar en Wales sem er í 45. sæti. Gott gengi Wales að undanförnu þýddi að liðið hækkaði sig um 45 sæti á nýjasta listanum og gæti nú farið enn ofar á næsta lista eftir þennan flotta sigur í dag.

Gareth Bale kom Wales í 1-0 á 11. mínútu eftir samspil við Steve Morison. Bale slapp einn í gegn og afgreidd boltann í markið með þrumuskoti.

Craig Bellamy bætti við öðru marki fimm mínútum seinna með glæsilegu skoti utan úr teig eftir sendingu frá Andrew Crofts.

Erik Huseklepp minnkaði muninn fyrir Norðmenn á 60. mínútu leiksins eftir að hafa nýtt sér varnarmistök hjá leikmönnum Wales.

Sam Vokes kom Wales í 3-1 á 88.mínútu eftir sendingu frá Gareth Bale og mínútu seinna bætti hann við öðru marki en Vokes hafði komið inn á sem varamaður á 70. mínútu leiksins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×